Jane Austen

Breska skáldkonan Jane Austen fæddist 16. desember árið 1775 á prestssetri föður síns í Steventon í Hampshire á suður Englandi. Hún var af góðum ættum og auðugum í báðar áttir þótt ekki væru foreldrar hennar ríkir. Séra Austen var ekki landeigandi en hann gegndi tveim prestaköllum og taldist til heldri manna og tilheyrði þar með lágaðli. Jane var næstyngst af átta börnum prestshjónanna, sex drengjum og tveim stúlkum. Systkinin voru ákaflega samrýnd, einkum voru systurnar tvær, Jane og Cassandra, góðar vinkonur og bjuggu saman meðan báðar lifðu. Hvorug þeirra giftist þótt báðar væru vinsælar meðal ungra manna; raunar munu þær báðar hafa misst manninn sem þær vildu giftast. Jane var tvö ár í skóla þegar hún var sjö og átta ára, að öðru leyti var hún sjálfmenntuð. Hún las mikið og var afar vel að sér í enskum bókmenntum, sögu og heimspeki. Hún fór ung að skrifa sjálf alls konar texta til að skemmta fjölskyldunni, fyndnar skopstælingar á þekktum sögum, leikrit upp úr skáldsögum og sögulegt grín. Hún er býsna djörf í þessum æskuverkum sínum, vílar ekki fyrir sér að skrifa um ástir og dauða, óskilgetin börn, fyllirí, morð og sjálfsmorð – en ævinlega með hrekkjótt blik í auga.

Jane var um tvítugt þegar hún fór að vinna að bókunum sem seinna gerðu nafn hennar frægt um víða veröld. Á árunum 1796-97 skrifaði hún eldri gerð af Hroka og hleypidómum sem hún nefndi First Impressions. Hún sendi hana til útgefanda sem hafnaði henni en endurskrifuð kom hún út árið 1813. Þá var Jane þegar búin að gefa út skáldsöguna Sense and Sensibility (1811), næst komu svo Mansfield Park (1814) og Emma (1816). Sumarið 1817 lést Jane Austen úr nýrnasjúkdómi, rétt rúmlega fertug, en Henry bróðir hennar sá um að koma út sögunum sem voru til heilar í handriti. Þær komu út saman í einni bók 1818, Northanger Abbey og Persuasion. Það var líka fyrsta bókin sem var gefin út undir nafni höfundar; fram að því hafði hún notað dulnefnið „a lady“.

Myndin með þessari grein er eftir Cassöndru, systur Jane, og er sú eina sem er áreiðanlega af Jane Austen. Ótal eftirmyndir hafa verið gerðar af henni til að breyta svip skáldkonunnar, milda hann og gera hana sætari.

Fáðu þér rafbók

Nýjast | A–Ö | Verð ↓
1
Forlagsverð: 4.990 kr.
Kaupa

1
Nýjar bækur | Spennusögur | Barnabækur | Skáldsögur | Ljóð
karfan mín
Leita