Jón Atli Jónasson

„Afskaplega áhrifamikil lesning“

Ágúst Borgþór rithöfundur og ötull menningarbloggari skrifar grein á dv.is í gær um nýja nóvellu eftir Jón Atla Jónasson og er hrifinn. Hann segir: „Í gær las ég pínulitla en ótrúlega magnaða bók sem er nýkomin út. Þetta er nóvella eða löng smásaga … og heitir Börnin í Dimmuvík. Bókin er aðeins 83 blaðsíður í litlu broti en afskaplega áhrifamikil lesning.” Hann rekur stuttlega söguefnið og finnst það vera „öðrum þræði könnun á því hvað stendur eftir af tilvistinni, hverjir eru grunnþættir mannlegrar tilveru, þegar búið er að svipta manneskjuna nær öllum bjargráðum, að ógleymdu flestu því sem telst til menningar og afþreyingar.“ Og samanburðarefnið er ekki af verri endanum: „Ég kallaði hana í huganum „Litla Sjálfstætt fólk“ þegar ég var að lesa hana en sumt er líkt með þessum vægast sagt mislöngu sögum.“

Um stílinn á sögunni segir Ágúst Borgþór að Jón Atli nýti sér „þekkingu sína á sjónrænum miðlum, leikhúsi og kvikmyndum, því sagan er í senn feykilega myndræn og meitluð. Þrauthugsaður og markviss stíllinn veldur því að textinn nær stundum dáleiðandi tökum á lesendanum. Mæli eindregið með þessari sumarlesningu sem tekur stuttan tíma en lifir lengi með þeim sem lesa. Hún er auðlesin en lesturinn er erfið upplifun, hún kemur við tilfinningarnar.“

INNskráning

Nýskráning