Galdur Þórunnar

Svavar Gestsson fyrrverandi ráð- og sendiherra fjallaði nýverið um nýjustu bók Þórunnar Valdimarsdóttur, Mörg eru ljónsins eyru, á vef sínum. Það er ljóst að Þórunn á vísan stað í bókhillum á þeim bænum og nýjasta verk hennar svíkur ekki. Svavar segir:

„Þórunn Valdimarsdóttir er mikill uppáhaldshöfundur á mínum bæ. Það gerir ekki síst Matthías Jochumsson. Það er þess vegna með sérlegri ánægju að ég tek mér í hönd bók eftir hana og les svo og les í einni rispu. Það er engin leið að hætta eins og segir í ljóðinu. Fyrst fannst mér hún reyndar með dálitla stæla í stíl framan til; en það venst vel og verður að lokum skemmtilegt.

Bókin er Laxdæla nútímans; að vísu finnst okkur að allt sem minnir á það rit í nútíð ætti gjarnan að gerast hjá okkur fyrir vestan. Við viljum helst að hádramað sé á Svínadal neðan til og í Selinu í Sælingsdal. Að þeir sem farast farist í Hvammsfirði. Sumir myndu segja að þetta lýsti bara eigingirni Dalamanna og það er kanski þannig. Sviptingar Laxdælu flytur Þórunn hins vegar beinlínis á mölina og í hrunið.  Hver flækja er leyst með göldrum sem oftast ganga alveg upp. Og að lokum erum við sátt; líka við sem teljum að við eigum sögusvið Laxdælu. Þeir sem hafa lesið Laxdælu hafa ánægju af þessari bók. Þeir sem ekki hafa lesið Laxdælu munu gera það eftir að hafa lesið þessa bók.

Þórunn Valdimarsdóttur verður áfram uppáhaldshöfundur í mínu húsi.“

Vefur Svavars.

INNskráning

Nýskráning