Jane Austen

Hroki og hleypidómar 200 ára

Breskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að minna á það undanfarið að ein vinsælasta breska skáldsagan frá upphafi, Hroki og hleypidómar eftir prestsdótturina og piparmeyna Jane Austen, er tvö hundruð ára um þessar mundir.

Hún kom fyrst út í London í janúar árið 1813 og fræðimenn hafa grafið það upp að hún gerist beinlínis á árunum 1811 og 1812 þannig að hún var sannkölluð samtímasaga. Á íslensku rataði hún fyrst undir nafninu Ást og hleypidómar líklega skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari en ekkert útgáfuár er á þeirri útgáfu, þýðanda er heldur ekki getið og sagan er mikið stytt eins og alsiða var um klassískar bókmenntir fyrr á tíð. Hún kom svo út í fullri lengd í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur árið 1988 og hefur síðan verið endurútgefin þrisvar sinnum í kilju með ólíkum kápumyndum. Á þeirri fyrstu var málverk eftir Robert Guillemette af þeim Elísabet og Darcy. Á annarri útgáfu var mynd af Colin Firth og Jennefer Ehle úr geysivinsælli sjónvarpsþáttaröð frá BBC; á þeirri þriðju var mynd af Keiru Knightley og Matthew Macfadyen úr vinsælli kvikmynd frá árinu 2005. Á þeirri fjórðu sem ennþá er til hjá Forlaginu er horfið aftur til upprunans og skuggamynd af þeim Elísabet og Darcy Roberts Guillemette látin bera við fagurlega bleikrósótt veggfóður. Fyrir síðustu jól kom svo út hjá Forlaginu önnur vinsælasta bók Jane Austen, Emma, í íslenskri þýðingu Sölku Guðmundsdóttur.

INNskráning

Nýskráning