Íslendingablokk
Útgefandi: JPV 2012

Íslendingablokk

Höfundur: Pétur Gunnarsson

Þau eru mörg og ólík: Indriði tollari, ekkjumaður við ævilok sem lifir í ríkum mæli það sem hann á „ólifað“, Addi rakari sem á stjörnu í Vetrarbrautinni, skólasálfræðingurinn Kata sem hefur slegið í gegn sem ljóðskáld en á í brösum með framhaldið, Hansi sem er ágætlega kvæntur kynlífsfíkill og Máni sem hefur alið manninn við hjálparstörf í Afríku og hyggur á forsetaframboð. En þau eiga sameiginlegt að búa í sömu blokkinni, Íslendingablokk, og margir fleiri – vinir, kunningjar og ættingjar – koma við sögu. Þó er ótalinn gerandi sem eins og endranær í sögum Péturs ræður úrslitum: sjálf framsetningin eða stíllinn.

Íslendingablokk er hugljúf og fyndin samtímasaga. En þó að hún fjalli um fólk í blokk í Reykjavík hér og nú fer hún víða í tíma og rúmi, jafnvel alla leiðina aftur í Miklahvell …