Barbara Árnason

Passíusálmarnir myndskreyttir af Barböru Árnason

Nú í apríl er væntanleg hjá Forlaginu endurútgáfa á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar myndskreyttum af Barböru Árnason.

Barbara Moray Williams Árnason var fædd og uppalin í Englandi og lauk þar listnámi. Hún var fengin til að myndskreyta endursagnir úr Íslendingasögum skömmu eftir að hún lauk námi og kveikti það hjá henni áhuga á landi og þjóð. Hún hélt til Íslands árið 1936 og reyndist það mikil örlagaferð í hennar lífi. Hún kynntist Magnúsi Á. Árnasyni, myndhöggvara og málara, og gengu þau í hjónaband 1937. Þau bjuggu hér á landi til dauðadags og myndskreytti Barbara meðal annars fjölda barnabóka. Það tók hana heil sjö ár að myndskreyta Passíusálma Hallgríms Péturssonar.   Menningarsjóður gaf þessa bók fyrst út árið 1960 og vöktu myndir hennar þegar mikla athygli og hrifningu. Síðan hefur þessi útgáfa verið prentuð hvað eftir annað. „Það er fyrsta passía í myndum , sem vér höfum eignazt“ segir Sigurbjörn Einarsson biskup í formála fyrri útgáfu, „en hitt er þó meira, að hún er gerð af frábærri list. Myndir frú Barböru munu jafnan taldar meðal merkustu tíðinda á ferli Passíusálmanna.“



INNskráning

Nýskráning