Sigrún Eldjárn

Tilnefnd til virtra verðlauna

Sigrún Eldjárn er tilnefnd af Íslands hálfu til sænsku Alma-verðlaunanna í ár, en til verðlaunanna var stofnað í minningu Astridar Lindgren árið 2002. Verðlaunin hafa verið veitt átta sinnum til tíu einstaklinga og samtaka um allan heim en verðlaunaupphæðin er fimm milljónir sænskra króna. Sigrún er tilnefnd fyrir höfundarverk sitt sem rithöfundur og myndskreytir.

Í ár eru 175 aðilar frá 62 löndum tilnefndir til verðlaunanna, þar á meðal heimsþekktir höfundar á borð við Bretana Neil Gaiman, höfund Kóralínu, og Mary Hoffman, höfund Stravaganza-bókanna, Norðmanninn Ragnar Hovland, sem á sögu í smásagnasafninu Elskar mig, elskar mig ekki sem nýlega er komið út á íslensku, og bandaríska ölduninn Eric Carle sem skrifar bæði og teiknar og er þekktastur fyrir metsölubók sína Gráðuga lirfan. Margir þekktir teiknarar eru jafnframt á lista tilnefndra og má þar nefna Wolf Erlbruch, höfund bókarinnar Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni, Bretinn Quentin Blake sem þekktastur er fyrir myndskreytingar við sögur og ljóð Roalds Dahl,  hinn þýska Axel Scheffler sem teiknaði bókina Greppikló, Danann Peter Madsen, höfund Goðheima-bókanna og sjálfa Ilon Wikland sem hefur gert persónur Astridar Lindgren frægar um víða veröld. Þá eru norsku hjónin Svein Nyhus og Gro Dahle tilnefnd til verðlaunanna, en nýlega kom út á íslensku eftirtektarverð verðlaunabók eftir þau sem heitir Illi kall.

Þá eru fjölmörg samtök sem styðja við lestur og læsi um allan heim einnig tilnefnd til verðlaunanna, meðal annars frá Indlandi, Tyrklandi og Bólivíu, ásamt höfundum og myndskreytum sem ólíklegt er að ratað hafi í bókahillur íslenskra barna, meðal annars höfundum frá Íran, Maldíveyjum, Indónesíu, Jómfrúareyjum, Palestínu, Egyptalandi, Filippseyjum, Litháen og Namibíu.

Þann 29. mars 2011 klukkan 13.00 að sænskum tíma verður tilkynnt hver eða hverjir hljóta Alma-verðlaunin og gerist það samtímis við bæinn Näs í Vimmerby í Smálöndunum í Svíþjóð, þar sem Astrid fæddist, og á alþjóðlegu barnabókasýningunni í Bologna á Ítalíu. Á meðan Sigrún bíður frétta af því kynnir hún nýju bækurnar sínar tvær, Forngripasafnið, sem er fyrsta bókin í spennandi þríleik fyrir börn frá 8 ára aldri, og barnaljóðabókina Árstíðirnar sem hún sendir frá sér ásamt Þórarni bróður sínum og hentar lesendum á öllum aldri.

INNskráning

Nýskráning