Kristin Marja

Kristín Marja Baldursdóttir: Ávarp á Degi íslenskrar tungu

Þegar íslenskir rithöfundar lesa upp úr þýddum verkum sínum á erlendri grundu fá þeir gjarnan spurningar frá áheyrendum á eftir. Meðal annars þá hvort það sé ekki erfitt fyrir höfundinn að skrifa á tungu sem svo fáir skilja. Hafa þeir þá eflaust  bágborna afkomu aumingja höfundarins í huga. Á slíkum stundum er ekki laust við að sú hugsun sæki að höfundi, að þeir hafi rétt fyrir sér, hann sé náttúrlega leiksoppur þeirra örlaga að vera fæddur á Íslandi.

Og til að upplýsa þá enn betur um þann vanda sem íslenskir höfundar glíma við, er gjarnan gripið til þess ráðs að lesa stuttan texta úr frumsamda verkinu, þann íslenska semsagt, með ríkri áherslu á stuðla og höfuðstafi, á errið mikla og aðblásturinn, láta textann flæða eins og íslenskan foss í leysingum af fullum þunga yfir mannskapinn.

En viðbrögðin við lestrinum hafa ætíð verið á annan veg en ég ætlaði. Í stað þess að fá þann dóm um íslenskuna að hún sé hart tungumál og óþjált, segja útlendingarnir með aðdáun: það er svo mikil músik í íslenskunni!

Í glímunni við orðið og beygingarnar sem kennari á árunum áður, hvarflaði tónlist aldrei að mér. Þá var móðurmálið áhyggjuefni, vandi minn fólst helst í að sannfæra nemendur um hversu mergjað mál íslenskan væri. Ég tók ótal dæmi til marks um það, dæmi eru árangursríkust í kennslu, meðal annars tæpti ég oft á þessu: Á ensku segjum við „in the neighbourhood of the town“, sex orð. Á íslensku: „Í nágrenni bæjarins“, þrjú orð.  Þá snjöllu tölfræði skildu nemendur, urðu upp með sér að eiga þessa þaulhugsuðu tungu, íslenskan varð skemmtileg þraut að leysa.

En tónlistin var víðs fjarri.

Þrautaganga mín með íslenskuna á herðunum hófst hins vegar á blaðamannsárunum á Morgunblaðinu. Á þeim bæ bjuggu harðir íslenskumenn. Þegar farið var yfir fréttir og greinar á fundum voru efni og innihald ekki endilega umfjöllunarefnið heldur málnotkun blaðamannsins. Textinn skyldi birtur alþjóð og því ekki lítið í húfi.

Af þeim sökum var ég skiljanlega ætíð sem hengd upp á þráð, þorði vart að beita málinu án þess að ráðfæra mig áður við Orðabók Háskólans. Þær voru ófáar símhringingarnar til þeirrar stofnunar.

En því er ekki að neita að þótt fáir fagrir tónar hafi borist til eyrna minna meðan ég baslaði við íslenskuna á Morgunblaðinu, var umræddur fjölmiðill einn sá besti skóli sem ég hef sótt.

Heyrði ég tónlistina í móðurmálinu fyrst þegar útlendingarnir bentu mér á hana eða heyrði ég hana ef til vill fyrir áratugum þegar ég skoðaði bækurnar hans afa, heilögu bækurnar hans afa míns sem enginn mátti snerta, maður stalst í þær, heyrði ég hana þá þegar ég fletti viðhafnarútgáfu á verkum Jónasar Hallgrímssonar í bundnu og óbundnu máli, skreytta myndum af málverkum íslenskra listmálara. Heyrði ég hana kannski þá, tónlistina í íslenskri tungu:

Bíður kona heima á hlaði, hrædd og fegin seglið eygir
Við Sogið sat ég í vindi, sækaldri norðanátt
En ég fann ekki neinn, ég er orðinn of seinn, þar er alsett af lifandi og dauðum.
Man ég þig, er máni að mararskauti sígur silfurblár
Dögg það við hugðum, og dropa kalda kysstum úr krossgrasi.
Veistu það Ásta, að ástar þig elur nú sólin
Ó, að ég væri orðinn nýr og ynni þér að nýju.

Minnir þetta ekki á Mozart? Sama snilldin, tónunum eða orðunum lyft upp í hæðir, upp í tæran einfaldleikann sem allir skilja, allir unna en fæstir geta leikið eftir.

Fólk sem fæst við skáldskap hefur fyrir löngu komist að því að það er mun auðveldara að skrifa samanskrúfaðan og tilgerðarlegan flækjustíl en að skrifa einfaldan stíl sem er þó í senn skáldlegur, frumlegur, myndrænn, hugmyndaríkur, tilfinningaríkur.

Fólkið sem leikur alla daga á hljóðfærið sem ber heitið íslensk tunga hefur líka smám saman áttað sig á því að þetta er engin venjuleg skólafiðla sem það leikur á, þetta er Stradivarius.

Ég hafði hugsað mér í upphafi að halda geðlægum orðaforða í lágmarki í þessu ávarpi, tjá mig heldur, og kannski í ströngum kansellistíl, um ólæsi barna, en það var áður en tónlistin tók völdin. Samt nokkur orð um það.

Við sáum það fyrir að íslenskukunnáttu mundi hraka með tilkomu tölvu, farsíma og annarra tækja, sem óneitanlega eru tengd enskri tungu, en okkur óraði ekki fyrir því að þessi tæki myndu hertaka heimilislífið og heimta þann tíma sem áður fór í samræður og samskipti innan fjölskyldunnar.

Börn senda sms skilaboð meðan þau matast, foreldrar kíkja enn einu sinni á tölvupóstinn sinn klukkan tuttuguogtvö. Unglingurinn situr við fésbók fram yfir miðnætti, án þess að mæla orð af vörum, og það er ekki ljóst hvort orðin sem lenda á skjánum hans tilheyri íslenskri tungu eða enskri, oft eru þau eitthvert óskiljanlegt hrafl í skilaboðastíl.

Það er kannski kominn tími til að þjóðin geri það upp við sig hvort hún ætli að tala íslensku í framtíðinni, þetta músikalska tungumál, eða þessa blöndu af þrugli og hrafli sem maður heyrir oft núna.

Tölvunni og farsímanum hefur líka fylgt spenna sem þekktist ekki áður. Allir þurfa að vera tengdir en fæstir eru tengdir við sjálfa sig. Krafan er sú að ætíð skuli vera hægt að ná í alla hvenær sem er og hvar sem er, og þjóðin heimtar tafarlaus svör við skilaboðum og tölvupósti. Líkt og hún sé í hernaði.

Lélegur lesskilningur barna og ólæsi haldast án efa í hendur við þau hamfarasamskipti sem ríkja í samfélaginu. Til að læra tungumál þarf tíma, innri ró og helst einhvern til að tala við.

Tíminn vill ei tengja sig við börnin, svo maður noti að einhverju leyti orðalag skáldsins, en hann vill hins vegar ólmur tengja sig við tækin. Það er foreldranna að kippa honum úr sambandi, þeir eiga að stjórna því hversu miklum tíma er eytt í fjarskiptin. Íslenskukennslan hefst heima.

Kennararnir taka síðan við keflinu og það þarf ekki að orðlengja að þeir verða að búa yfir góðri íslenskukunnáttu. Þjóðin á að sjá um að þeir fái góða menntun og ekki einungis hvað snertir orðin og beygingarnar, heldur líka aðferðirnar. Hvernig við getum komið börnunum í skilning um að hljóðfærið þeirra, sem þau munu þurfa að leika á allt lífið, er eitt það dýrmætasta í veröldinni.

Það er nú einu sinni svo, að þótt börn eigi í basli með íslenskuna í bók, og skiptir þá litlu hvort um rafbók er ræða eða bók í bandi, geta þau flest sungið hana hástöfum og eiga þá í engum vandræðum með textann. Kannski gæti ein aðferðin verið sú að nota tónlistina meira og betur í móðurmálskennslunni.

Ég minntist á hann afa minn áðan, sem hafði nógan tíma til að lesa. Ég var alin upp af krötum sem fæddust á nítjándu öld og þeir innrættu mér að sjálfsögðu ákveðin gildi. Til að mynda þau að tala ekki um sjálfa mig, sem ég hef nú gert og biðst velvirðingar á, en ég verð þó að fá að bæta því við að ég er afar upp með að veita verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar viðtöku á Degi íslenskrar tungu. Ég hef alltaf verið svo veik fyrir þeim verðlaunum. Og kannski engin furða, á undan mér hafa farið íslenskujöfrar.

Að lokum vil ég þakka íslenskum skáldum, rithöfundum, kennurum, tónlistarmönnum, foreldrum og afa og ömmu fyrir að hafa auðgað mál mitt.


INNskráning

Nýskráning