Steinar Bragi hlýtur Tindabikkjuna 2014

Á versta degi ársins (samkvæmt vísindalegum niðurstöðum), 24. janúar 2015, veitti Glæpafélag Vestfjarða Tindabikkjuna í kyrrþey í líkhúsi Gamla sjúkrahússins á Ísafirði. Besta glæpasaga Íslands árið 2014, að mati glæpafélaga, er Kata eftir Steinar Braga.

Fær hann að launum glæsilegan verðlaunagrip eftir Pétur Guðmundsson myndlistarmann og 2 kíló af tindabikkju í soðið frá fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði. Það hafa verið háðir blóðugri bardagar milli glæpafélaga við val á Tindabikkjuhafa en þetta sinn. Kata er kannski ekki hin týpíska glæpasaga, en sannarlega vel að þessum verðlaunum komin, mögnuð sem hún er.

Kata kom við kauninn á glæpafélögum og sýndi getuleysi samfélagsins til að taka á ofbeldisglæpum. Steinar Bragi veitir okkur innsýn í hugarheim aðstandanda sem í sorg og vanmætti reynir að takast á við óréttlæti og grimmd mannsins, fléttar snilldarlega saman tölfræðilegar staðreyndir við hömlulausa fantasíu. Glæpafélag Vestfjarða er glæpasagnaáhugalestrarfélag þar sem fimm lesarar lesa allar þær innlendu glæpasögur sem er að finna í hillum bókaverslana ár hvert.

Þetta er fimmta árið í röð sem Glæpafélag Vestfjarða afhendir Tindabikkjuna fyrir bestu íslensku glæpasöguna. Yrsa Sigurðardóttir fékk verðlaunin árið 2010 fyrir söguna Ég man þig, hún fékk einnig verðlaunin árið 2011 fyrir Brakið. 2012 fékk Stefán Máni verðlaunin fyrir bók sína Húsið og í fyrra fékk Óttar Norðfjörð þau fyrir Blóð hraustra manna.

INNskráning

Nýskráning