Þú ert hér://Arndís Þórarinsdóttir
Arndís Þórarinsdóttir

Arndís Þórarinsdóttir

Arndís Þórarinsdóttir er fædd árið 1982. Frá því að fyrsta smásaga hennar birtist í Tímariti Máls og menningar 2005 sendi hún reglulega frá sér smásögur auk þess að skrifa í bæði dagblöð og tímarit.

Fyrsta skáldsagan, Játningar mjólkurfernuskálds, kom út 2011 og var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2013. Þessi frásögn af fermingarstúlku sem fer út af sporinu virtist höfða mjög til íslenskra unglinga því bókin bæði seldist vel og stoppaði varla í hillum bókasafna.

Eftir þetta skrifaði Arndís talsvert fyrir Námsgagnastofnun, þar á meðal tvær stuttar skáldsögur fyrir mið- og unglingastig. Haustið 2018 kom Nærbuxnaverksmiðjan út, sem er fyndin og fjörmikil saga ætluð lesendum á yngri stigum grunnskóla.

Arndís er með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í leikritun frá Goldsmiths College, University of London. Hún var um tíma formaður Íslandsdeildar IBBY.