Þú ert hér://Eiríkur Örn Norðdahl
Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl (f. 1. júlí 1978) hefur verið ötull á ritvellinum síðan hann sendi frá sér sína fyrstu bók, Heilagt stríð: runnið undan rifjum drykkjumanna, 2001. Um svipað leyti stofnaði hann útgáfuna Nýhil með fleiri ungskáldum og undir því merki gaf hann út næstu bækur sínar. Fyrsta skáldsaga hans var Hugsjónadruslan kom síðan út hjá Máli og menningu árið 2004.

Eiríkur Örn Norðdahl bjó lengst af á Ísafirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum þar 1999. Auk ritstarfa hefur hann fengist við ýmis störf, verið leiðbeinandi í grunnskóla, málari í skipasmíðastöð, næturvörður á hóteli, stuðningsfulltrúi á sambýlum, fengist við umönnun aldraðra, káetuþrif á skemmtiferðaskipi og verið kokkur á leikskóla svo sitthvað sé nefnt. Hann hefur staðið að ótal menningarviðburðum undir merkjum Nýhils, meðal annars metnaðarfullum ljóðahátíðum þar sem skáldskapur ungra höfunda er í öndvegi. Hann hefur tekið þátt í útgáfum ýmissa safnrita á vegum Nýhils, nýjasta bókin af því tagi er Af steypu (2009). Hann er einnig afkastamikill á netinu, heldur úti síðunni auk þess sem hann tekur þátt í bloggi á öðrum síðum, t.d. vefnum Tíu þúsund tregawött. Á þessum vefjum má lesa ótal pistla eftir Eirík Örn auk ljóða hans og ljóðaþýðinga.

Eiríkur Örn Norðdahl hlaut viðurkenningu Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2007 og Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem 2008. Fyrir skáldsögu sína Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012. Hann hefur ferðast víða um heiminn til að taka þátt í bókmennta- og ljóðahátíðum en að staðaldri býr hann í Finnlandi, Svíþjóð og á Ísafirði eftir föngum.