Jóhannes úr Kötlum

Jóhannes úr Kötlum

Jóhannes (Jóhannes Bjarni Jónasson) úr Kötlum var fæddur að Goddastöðum í Dölum 4. nóvember 1899 og lést í Reykjavík 27. apríl 1972. Hann var barnakennari á árunum 1917 til 1932 en eftir það stundaði hann ritstörf. Jóhannes er kunnastur fyrir ljóð sín en hann sendi einnig frá sér skáldsögur, ljóðaþýðingar, ritgerðir og greinar. Fyrsta ljóðabók Jóhannesar kom út 1926 og nefndist Bí, bí og blaka og sú síðasta, Ný og nið, kom út 1970.

Ljóðabækur Jóhannesar urðu tuttugu talsins og þar af eru fimm fyrir börn: Jólin koma (1932), Ömmusögur (1933), Bakkabræður (1941), Ljóðið um Labbakút (1946) og Vísur Ingu Dóru (1959). Ljóðasafn hans fyrir fullorðna var gefið út í átta bindum á árunum 1972-’76 og tíunda bindinu með barnaljóðum var bætt við 1984. Þetta safn er uppselt en vorið 2010 var gefið út Ljóðaúrval Jóhannesar í einni fallegri bók með inngangi eftir Silju Aðalsteinsdóttur. Þar er eingöngu valið úr ljóðabókum skáldsins fyrir fullorðna.