Sigurbjörg Þrastardóttir

Sigurbjörg Þrastardóttir

Sigurbjörg Þrastardóttir er fædd 27. ágúst 1973 á Akranesi. Hún lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1997 og prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla 1998.

Fyrsta ljóðabók Sigurbjargar, Blálogaland, kom út árið 1999. Ári síðar kom út ljóðabókin Hnattflug sem hlaut góðan meðbyr og var til að mynda valin besta ljóðabók vertíðarinnar af starfsfólki bókaverslana. Í bókinni er ferðast um borgir, götur, fjöll, höf og aðra raunverulega staði í myndrænum ljóðum. Ljóð úr þriðju bókinni, Túlípanafallhlífum, hafa verið þýdd á ýmis tungumál og birt í safnbókum, tímaritum og á bókmenntavefjum. Sigurbjörg hefur komið fram á ljóðahátíðum í Evrópu og fjallað hefur verið um ljóðagerð hennar í króatísku, hollensku og frönsku bókmenntapressunni svo nokkuð sé nefnt. Í Svíþjóð var gefið út ljóðaúrvalið Fallskärmsresor.

Af leikverkum má nefna Þrjár Maríur (2004 á Litla sviði Borgarleikhússins), uppistandið Maður og kona: Egglos (Leikfélag Akureyrar, 2003) og leikgerð Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur (í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2005).

Skáldsagan Sólar saga kom út haustið 2002 og fjallar um unga stúlku sem gengur í gegnum erfiða lífsreynslu á Ítalíu en finnur öryggið aftur á sérstæðan hátt. Fyrir handrit bókarinnar hlaut Sigurbjörg Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar sem kennd eru við Tómas Guðmundsson árið 2002.