Þú ert hér://Þórarinn Eldjárn
Þórarinn Eldjárn

Þórarinn Eldjárn

Þórarinn Eldjárn er fæddur í Reykjavík 22. ágúst 1949. Hann stundaði nám í bókmenntum, heimspeki og íslensku við Háskólann í Lundi og Háskóla Íslands. Hann á að baki langan höfundarferil en fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1974. Hann hefur haft skýra sérstöðu meðal íslenskra skálda. Þekktastur er hann fyrir glímu sína við hið hefðbundna ljóðform en einnig hvernig hann hefur unnið úr íslenskum menningararfi með ísmeygilegri gamansemi sinni sem tíðum reynist egghvöss þegar betur er að gáð. Þórarinn er eitt ástsælasta skáld þjóðarinnar; bækur hans hafa jafnan notið mikilla vinsælda og iðulega verið á metsölulistum. Hann er gríðarlega fjölhæfur og hefur sent frá sér verk í flestum greinum bókmennta: ljóðabækur í hefðbundnu formi og frjálsu, smásögur, skáldsögur, söguleg og ævisöguleg verk, leikrit og barnaljóð, auk þess sem hann hefur verið afkastamikill þýðandi og höfundur söngtexta.

Meðal viðurkenninga sem Þórarinn hefur hlotið eru viðurkenning Sænsku akademíunnar fyrir kynningu á sænskri menningu erlendis (2013),  Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir barnabækurnar Árstíðirnar (2010) og Gælur, fælur og þvælur (2007), ljóðabókina Hættur og mörk (2005)  og árið 2008 var hann útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur. Árið 2006 hlaut hann Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Vorvindaverðlaun Íslandsdeildar IBBY árið 2001 og Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir Halastjörnu árið 1998. Ennfremur hlaut hann Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 1998. Bók hans og Sigrúnar Eldjárn, Fuglaþrugl og naflakrafl, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2014 og þýðing hans á Lé konungi eftir William Shakespeare til Íslensku þýðingaverðlaunanna árið 2010. Skáldsaga Þórarins, Brotahöfuð, var tilnefnd til írsku IMPAC-verðlaunanna, Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Aristeion, evrópsku bókmenntaverðlaunanna.