Kristín, Magnea og Rán hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2018

Við óskum handhöfum Barna­bóka­verðlauna Reykja­vík­ur­borg­ar 2018 hjartanlega til hamingju!

Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri af­henti Barna­bóka­verðlaun Reykja­vík­ur­borg­ar við hátíðlega at­höfn í Höfða í dag og tilkynnti að frá og með næsta vori yrðu árlega veitt sérstök barnabókaverðlaun í nafni Guðrúnar Helgadóttur, eins vinsælasta og virtasta barnabókahöfundar landsins.

Kristín Helga Gunnarsdóttir skáldkona hlaut verðlaunin í flokki frumsaminna barnabóka fyrir bók sína Vertu ósýnilegur sem Mál og menning gaf út á liðnu ári.

Í umsögn dómnefndar segir m.a: „Í liprum og raunverulegum lýsingum er fjallað um baráttu fólks til að lifa venjulegu lífi í hringiðu hrikalegra stríðsátaka. Á sama tíma er fjallað af nærfærni um viðkvæmar tilfinningar unglinga og ungs fólks, samskipti og samskiptavanda. „

Magnea J. Matthíasdóttir fékk Barnabókaverðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur eftir Elenu Favilli og Francescu Cavallo sem Mál og menning gaf út.

Í umsögn dómnefndar segir: „Þýðing Magneu nær vel utan um snarpan og einfaldan stíl bókarinnar og framkallar það sem höfundarnir óska sér; löngun til að leita meiri upplýsinga um hverja og eina af hundrað stelpum sem á ýmsan máta voru og eru uppreisnargjarnir brautryðjendur.“

Verðlaun fyrir bestu myndskreytingu komu í hlut Ránar Flygenring fyrir teikningar í bókinni Fuglar eftir þau Hjörleif Hjartarson sem Angústúra gaf út 2017.

Í umsögn dómnefndar segir: „Persónuleiki íslenskra fugla, þeirra daglega amstur og umhverfi er dregið upp á einstaklega skemmtilegan hátt. Í teikningum Ránar er mátuleg blanda af kæruleysi og vandvirkni, skopi og alvöru. Texti og myndir skapa sterka heild og vitna um litanæmi og listfengi. Magnaðar teikningar sem vekja áhuga ungra lesenda, og lesenda á öllum aldri, á fræðandi efni.“

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru elstu fagverðlaun fyrir barnabókmenntir á landinu og hafa verið veitt óslitið frá árinu 1973 með það að markmiði að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir börn og ungmenni.

Frekari upplýsingar um tilnefnda titla og verðlaunahafa má finna hér.

Myndir: Reykjavíkurborg

INNskráning

Nýskráning