Maxímús Músíkús bjargar ballettinum í flutningi Berliner Ensamble

Maxi á ferð og flugi

Síðastliðinn laugardag var nýjasta sagan um Maxa, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum, flutt í einu frægasta tónleikahúsi heims, Fílharmóníunni í Berlín. Einn af kammerhópunum hljómsveitarinnar, Ensemble Berlin, lék tónlistina í nýrri kammerútsetningu og ungir ballettdansarar dönsuðu verkin sem fléttast inn í söguna. Miðar á tónleikana seldust upp á tveimur tímum og skemmtu áhorfendur sér stórvel. Höfundur sagnanna um Maxímús, Hallfríður Ólafsdóttir, var á staðnum og áritaði bækur að tónleikunum loknum.

Í næstu viku heldur Maxímús síðan til Bandaríkjanna til þess að koma fram á Nordic Cool hátíðinni í Kennedy Center í Washington ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Tónleikarnir verða mánudaginn 4. mars og þar verður fyrsta sagan hans Maxa, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, flutt á skólatónleikum.

Allar sögurnar um Maxímús Músíkús hafa komið út á þýsku og fyrsta sagan, Maximus Musicus visits the Orchestra, kom nýverið út á ensku hjá Music World Media, bæði í prentaðri útgáfu og á rafbók fyrir spjaldtölvur þar sem hægt er að hlusta á söguna ásamt tónlistinni, horfa á myndirnar og sjá orðin lýsast upp um leið og lesið er. Ferðalagi Maxa lýkur með upplestri á ævintýrum hans í aðal barnabókabúðinni í New York, Bankstreet Bookstore, laugardaginn 9. mars og Maxi ætlar líka að vera viðstaddur þar, hitta börn og árita bækur.

INNskráning

Nýskráning