Maxímús gerir það gott

Gengið hefur verið frá samningum við þýska útgáfurisann Schott Music um útgáfu á bókinni Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson. Bókin sú, sem kom út hérlendis 2008, sló eftirminnilega í gegn og á dögunum kom út sjálfstætt framhald hennar, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann. Fyrri bókin hefur þegar komið út í Kóreu og Færeyjum en í haust bætist Þýskaland í hópinn. Schott var ekki eitt um hituna í þetta sinn en hafði betur í uppboðsstríði um músina tónelsku.

Schott Music er stærsta útgáfufyrirtæki sinnar tegundar á meginlandi Evrópu og meðal virtustu útgáfufélaga í heimi er sérhæfa sig í útgáfu tengdri tónlist. Fyrirtækið er yfir 200 ára gamalt, er með starfsemi í 10 löndum en það dreifir vörum sínum um allan heim. Aukinheldur hefur félagið afar góð tengsl við tónleikahaldara og hljómsveitir víða um jarðir sem er dýrmætt fyrir Maxímúsar-verkefnið þar sem unnið er að því að fleiri setji upp Maxímúsar-tónleika líkt og Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur gert með svo góðum árangri hér heim.

Tónleikadagskráin um Maxa hefur þegar verið bókuð í einu af virtustu tónleikahúsum veraldar, Concertgebouw tónleikahöllinni í Amsterdam en þar mun   Sinfóníuhljómsveit Hollands flytja efnisskrána og ferðast svo víðar með hana um landið. Maxi verður síðan einnig á ferðinni hinum megin á hnettinum í haust þar sem  Sinfóníuhljómsveit Melbourne heldur þrettán Maxa-tónleika í Ástralíu. Nýverið var gengið frá samningi við ástralska forlagið Alto Books um útgáfu fyrri bókarinnar þar í landi en hún mun koma út þar í haust.  Útgáfufélög víða um heim hafa nú bækurnar til skoðunar svo ljóst má vera að ferðalögum Maxa linnir lítt á næstunni

INNskráning

Nýskráning