Maxímús Músíkús

Maxímús tilnefndur til YEAH!-verðlaunanna

Um helgina var tilkynnt hvaða verkefni eru tilnefnd til YEAH-verðlaunanna 2015, sem veitt eru fyrir bestu tónlistarverkefni í Evrópu ætluð ungu fólki; meðal þeirra er verkefnið um Maxímús Músíkús sem slegið hefur í gegn hérlendis og verið sett á svið víða um heim. Yfir hundrað verkefni frá tuttugu Evrópulöndum sóttust eftir tilnefningu að þessu sinni og því er gríðarlegur heiður að vera í hópi þeirra fimmtán sem útnefnd voru.

Hugmyndafræðin að baki verðlaununum er sú að tónlist tengi fólk saman og því sé lífleg og skapandi tónlistarsena lykillinn að friðsamlegri framtíð í fjölmenningarlegri Evrópu. Þannig tengist ungir Evrópubúar fjölbreyttum rótum menningar sinnar og um leið hver öðrum með jákvæðum hætti. Því er mikilvægt að hampa frumlegum tónlistarflutningi sem leyfi ungum – og ungum í anda – að upplifa tónleika og tónlistarleikhús á nýjan og skapandi hátt. Slíkt starf ýti undir frumkvæði meðal evrópskra tónlistarmanna og hvetji þá til nýsköpunar.

YEAH!-verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum og er verkefnið um Maxímús Músíkús í hópi þeirra tíu sem útnefnd voru fyrir „tónleikaflutning“ en einnig voru valin fimm verkefni í flokkinn „verk í vinnslu“. Sjálf verðlaunin verða veitt í Þýskalandi í júní.

INNskráning

Nýskráning