Mazen Maarouf

Mynd: Raphael Lucas

Mazen Maarouf er tilnefndur til alþjóðlegu Man Booker-verðlaunanna fyrir smásagnasafnið Brandarar handa byssumönnunum, eða Jokes for the Gunmen.

Þrettán bækur eru tilnefndar í ár og á meðal tilnefndra eru Samanta Schweblin, argentínskur höfundur sem væntanleg er á Bókmenntahátíð í Reykjavík í apríl, Olga Tokarczuk frá Póllandi, sem hlaut alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin í fyrra fyrir skáldsöguna Flights, og hin sænska Sara Stridsberg, sem var gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2011.

Mazen Maarouf er palestínskur að uppruna, fæddur í Beirút 1978. Hann lærði efnafræði í háskóla en hefur undanfarinn áratug helgað sig skáldskap, blaðamennsku og þýðingum. Hann kom hingað til lands 2011 eftir að Reykjavíkurborg gerðist aðili að ICORN, samtökum borga sem eru skjólborgir fyrir rithöfunda þurft hafa að yfirgefa heimalönd sín vegna hótana eða annarra ofsókna. Fjölskylda hans hrökklaðist frá heimkynnum sínum í Palestínu við stofnun Ísraelsríkis 1948. Lengstan hluta ævi sinnar bjó hann í Líbanon.

Hann hefur sent frá sér bæði ljóð og smásögur og fyrir Brandara handa byssumönnunum fékk hann Al-Multaqa verðlaunin, sem veitt eru fyrir smásögur á arabísku. Brandarar handa byssumönnunum geymir fjórtán smásögur sem eru lauslega tengdar innbyrðis. Margar þeirra fjalla um börn eða eru sagðar frá sjónarhorni barns og umhverfið er á stundum stríðshrjáð borg – umfjöllunarefnið oft fólk sem lifir við ógn og viðbrögð þess við óvenjulegum aðstæðum. Hún kom út á íslensku í þýðingu Ugga Jónssonar hjá Máli og menningu í byrjun árs.

Í fyrstu umferð alþjóðlegu Man Booker verðlaunanna eru þrettán verk tilnefnd. Þeim er síðan fækkað í sex og verður það tilkynnt 9. apríl. Verðlaunahafinn verður að lokum kynntur 21. maí. Verðlaunaféð er 50.000 pund og er því skipt jafnt á milli höfundar og þýðanda.

Alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin voru stofnuð 2004 í Bretlandi og eru veitt verkum rithöfunda sem út hafa komið í enskri þýðingu. Jón Kalman Stefánsson var tilnefndur til þeirra 2017 fyrir skáldsöguna Fiskarnir hafa enga fætur.