Maxímús Músíkús kætist í kór

Ný saga um Maxímús á fjölskyldutónleikum

Harpa iðar af lífi þessa dagana þegar skólahópar streyma að til að hlýða á nýjustu söguna um Maxímús Músíkús. Sinfóníuhljómsveitin heldur alls sjö skólatónleika þar sem dagskráin er flutt og býður á þá sjö þúsund börnum. Nýja bókin um Maxa ber titilinn Maxímús Músíkús kætist í kór og eins og nafnið gefur til kynna eru barnakórar á sviðinu, auk sinfóníuhljómsveitarinnar og sögumannsins, að ógleymdri sjálfri músinni.  Nýja sagan er æsispennandi og segir frá því þegar Maxi laumar sér með í æfingabúðir upp í sveit. Þar æfir fjöldi krakka skemmtileg lög en Maxi lendir í æsispennandi eltingarleik við köttinn á bænum og þarf auk þess að skerast í leikinn þegar systkini í hópnum verða ósátt. Inn í söguna fléttast sígild kórlög sem mörg eru flutt í nýjum og dillandi skemmtilegum útsetningum.

INNskráning

Nýskráning