Tímar takast í hendur – Dagskrá í Iðnó til minningar um Þorstein frá Hamri

Sunnudaginn 18. mars, frá 15:00 til 17:00, verður dagskrá í Iðnó til minningar um öndvegisskáldið Þorstein frá Hamri, sem lést þann 28. janúar síðastliðinn. Þar munu Eiríkur Guðmundsson, Elísabet Þorgeirsdóttir, Guðrún Nordal, Lilja Sigurðardóttir, Njörður P. Njarðvík og Vésteinn Ólason fjalla um skáldið frá ýmsum sjónarhornum. Lesið verður úr ljóðum Þorsteins og ennfremur mun sonur hans, Kolbeinn, lesa úr óbirtum minningabrotum föður síns, Tímar takast í hendur. Kynnir verður Stella Soffía Jóhannesdóttir.

Þorsteinn Jónsson fæddist 15. mars 1938 að Hamri í Þveárhlíð í Borgarfirði og hefði því orðið áttræður í þessum mánuði. Jafnframt eru sextíu ár liðin frá því að Þorsteinn gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli, en alls urðu ljóðabækur hans 26 talsins og kom sú síðasta, Núna, út árið 2016. Þorsteinn skrifaði einnig skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja fjölmargar þýðingar.

Þorsteinn hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Hann var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fimm sinnum: Árið 1972 fyrir Himinbjargarsögu eða Skógardraum, 1979 fyrir Fiðrið úr sæng Daladrottningar, 1984 fyrir Spjótalög á spegil, 1992 fyrir Vatns götur og blóðs og árið 2015 fyrir Skessukatla. Þá var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 fyrir Það talar í trjánum og 1999 fyrir Meðan þú vaktir. Þorsteinn hlaut Menningaverðlaun DV í bókmenntum árið 1981 fyrir skáldsöguna Haust í Skírisskógi, Stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar árið 1991, Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2004 og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2009.

Árið 1996 var honum veittur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf og Heiðurslaun Alþingis frá 2001.

Verk Þorsteins hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál, meðal annars þýsku, ensku, frönsku, ítölsku, dönsku, sænsku og kínversku, auk esperantó og annarra tungumála.

Aðgangur er ókeypis.

– Forlagið
 

F18050704 Þorsteinn

INNskráning

Nýskráning