Í ritinu segja tólf konur frá uppruna sínum og aðdraganda þess að þær urðu virkir þátttakendur í kvenréttindabaráttunni undir merkjum Rauðsokkahreyfingarinnar. Þær lýsa upphafinu, umbrotsárunum og þeirri þróun sem varð til þess að þáttaskil urðu í starfseminni á miðjum áttunda áratugnum. Baráttan var hörð og rauðsokkar beittu oft óhefðbundnum aðferðum til þess að koma málstað sínum á framfæri og vöktu með því hneykslan margra og kæti annarra.

Formála ritar Olga Guðrún Árnadóttir, ritstjóri bókarinnar, en þar segir m.a:
„Rúm fjörutíu ár eru liðin síðan Rauðsokkahreyfingin, ein af merkustu mannréttindahreyfingum Íslandssögunnar, varð til. Þar sameinaðist hugsjónafólk af báðum kynjum í baráttu fyrir rétti kvenna til að njóta jafnræðis og fullrar virðingar á við karla á öllum sviðum þjóðfélagsins.
Frumkvöðlar Rauðsokkahreyfingarinnar voru konur og konur báru hitann og þungann af starfsemi hennar frá degi til dags. Margar þeirra voru virkar í hreyfingunni um árabil, aðrar stóðu skemur við. Þessar konur komu úr ýmsum áttum og höfðu ólíkan bakgrunn en eitt áttu þær allar sameiginlegt: brennandi löngun til að afhjúpa og aflétta þeirri kynbundnu kúgun sem gegnsýrði samfélagið leynt og ljóst. Þær beittu gjarnan óhefðbundnum meðulum til að vekja athygli á málstaðnum, voru hugmyndaríkar og hugrakkar og örlátar á tíma sinn og krafta. Árangur erfiðisins var þeim sjálfum ekki alltaf sýnilegur og oft gafst tilefni til að efast, einkum fyrstu árin á meðan þyngst var fyrir fæti, en hugsjónafólk kallar ekki allt ömmu sína og fyrir vikið urðu á skömmum tíma straumhvörf í jafnréttisbaráttu á Íslandi.”