Höfundur: Frank McCourt

Haustið 1949 brýtur Frank af sér fjötra fátæktarinnar, kveður heimaborgina Limerick á Írlandi, nítján ára gamall, og heldur til New York. Hann hefur frá engu að hverfa nema móður sinni Angelu og bræðrunum þremur, en handan við hafið bíður hans “alveg dýrlegt land”.

Í New York kynnist hann stéttskiptingu hins “stéttlausa þjóðfélags” og kemst að raun um að með sinn írska arf, brunnar tennur og gulan gröft í sýktum augum, er honum skipað skör lægra en þeim innflytjendum sem aumastir þykja. En Frank berst áfram af þrautseigju og oftar en ekki verður skopskynið honum til bjargar í baslinu uns hann vinnur þann sigur sem hann þráir. Hann sem hraktist úr skóla fjórtán ára tekst eftir þrotlausa baráttu að ljúka háskólanámi og gerast kennari.

Alveg dýrlegt land hefst þar sem Aska Angelu endar, en það er ein frægasta minningasaga síðustu ára og metsölubók um allan heim. Fyrir hana hlaut Frank McCourt virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna, Pulitzer-verðlaunin. Alveg dýrlegt land er sjálfstætt framhald þeirrar bókar, full af heitum tilfinningum og ólgandi sagnagleði.