Batuk er ung indversk stúlka sem ætti að vera að leika sér, læra og feta fyrstu skrefin út í lífið. Í stað þess er hún lokuð inni í nöturlegu búri í fátækrahverfi í Mumbai þar sem hún er neydd til að uppfylla kynlífsþarfir ókunnugra karla. Batuk spinnur upp ævintýri um silfureyga hlébarða í bláu minnisbókina sína um leið og hún segir frá botnlausri grimmd, niðurlægingu og örvæntingu með rödd barnsins sem hefur glatað sakleysi sínu.

Bláa minnisbókin er áhrifamikil saga af fórnarlömbum barnamisnotkunar, saga sem nístir hjartað en vegsamar jafnframt vonina og máttinn sem býr í orðunum. Höfundurinn er læknir sem kynntist hlutskipti indverskra götubarna þegar hann var við störf í Mumbai. Sagan er skáldverk en byggir á reynslu Levine, skýrslum hans og rannsóknum.

Guðni Kolbeinsson þýddi.