Höfundur: Souad

Brennd lifandi, er sönn frásögn ungrar arabískrar konu frá vesturbakka Jórdanar. Hún kom út í Frakklandi fyrr á þessu ári og hefur vakið gríðarlega athygli. Hér er tekið á efni sem lengi lá í þagnargildi, sæmdarglæpum, en hefur orðið baráttumál ýmissa mannréttindasamtaka á undanförnum árum.

Souad elst upp í sveitaþorpi á áttunda áratugnum. Hún lendir í ástarævintýri sautján ára, fyrir hjónaband, en slíkt gengur gegn öllum hefðum í heimaþorpi hennar í Jórdaníu; með því fellur blettur á heiður fjölskyldunnar. Fyrir þennan "glæp" þarf hún að gjalda með grimmilegri refsingu. En það kraftaverk verður að henni er bjargað, af vestrænni konu, og komið til Evrópu. Í þessari frásögn sinni lýsir Souad atburðum sem gerðust ekki fyrir ýkja löngu og eru enn að gerast víða um heim. Þetta er fyrsta bók sinnar tegundar og segja má að höfundurinn taki mikla áhættu með henni. Þess eru nefnilega dæmi að konur sem lent hafa í svipaðri stöðu hafi verið eltar uppi síðar og þeim banað. Ódæðismennirnir sjálfir sleppa yfirleitt við nokkra refsingu. Talið er að konur verði fórnarlömb sæmdarglæpa svo milljónum skiptir í heiminum á ári hverju. Souad, sem hér segir frá, er ein örfárra til frásagnar.

Bókin Brennd lifandi er magnaður vitnisburður hugrakkrar konu, en einnig ákall til heimsins. Ákall um að rofin verði sú þögn sem umlykur dauða kvenna af völdum sæmdarmorða, ekki einungis í arabaheiminum heldur víðar. Frásögn Souad er saga manneskju sem öðlaðist nýtt líf, bók sem snertir sérhvern lesanda. Þýðandi er Árni Snævarr.