Höfundar: Serge Kahn, Jean-Baptiste Charcot

JPV ÚTGÁFA gefur út bókina Charcot - Heimskautafari, landkönnuður og læknir eftir Serge Kahn. Formáli er eftir dótturdóttur Charcots, Anne-Marie Vallin-Charcot, og Vigdís Finnbogadóttir ritar inngangsorð.

Franski landkönnuðurinn, leiðangursstjórinn og læknirinn Jean-Baptiste Charcot (1867-1936) var einn þeirra merkismanna sem fyrstir könnuðu og kortlögðu haf- og landsvæðin umhverfis heimskautin í byrjun síðustu aldar en þeirra á meðal voru Amundsen, Scott, Nordenskjöld og Peary.

Þekktasta skip Charcots var Pourquoi-Pas? - sérútbúið rannsóknaskip með þremur rannsóknastofum og bókasafni - allra fullkomnasta rannsóknaskip heims á sínum tíma. Í ferðum þess voru gerðar margvíslegar vísindarannsóknir sem þykja stórmerkar enn þann dag í dag.

Hinn 16. september 1936 strandaði Pourquoi-Pas? í aftakaveðri út af Álftanesi á Mýrum í Borgarfirði. Þetta er eitt hörmulegasta sjóslys Íslandssögunnar en alls fórust 40 manns og aðeins einn skipverjanna komst lífs af. Þegar minningarsamkoma um hina látnu var haldin í Kristskirkju, áður en líkin voru flutt til Frakklands, var öllum verslunum í Reykjavík lokað í virðingarskyni við hina látnu.

Þessi bók er gefin út nú þegar 70 ár eru liðin frá því Pourquoi-Pas? fórst. Hér er ævi Charcots og leiðöngrum hans til suður- og norðurheimskautasvæðanna gerð skil í máli og myndum, en bókina prýða á fjórða hundrað ljósmyndir, kort og skjöl.

Bókin er gefin út í samvinnu við Société de Géographie, Franska landfræðifélagið, sem stofnað var árið 1821. Hún kom út í Frakklandi í vor og er þessi íslenska útgáfa sú fyrsta utan heimalandsins.

Friðrik Rafnsson þýddi.

[Domar]

„Þetta er einkar glæsileg bók, prýdd miklum fjölda mynda. Þær hafa margar mikið heimildagildi og sumar eru hreint listaverk. Texti bókarinnar er vel saminn og fróðlegur aflestrar og þýðing Friðriks Rafnssonar er ágætlega gerð. Þetta er bók sem óhætt er að mæla með við alla, sem áhuga hafa á sögu vísinda og rannsókna á heimskautasvæðunum.“

Jón Þ. Þór / Morgunblaðið
[/Domar]

„Verkið er fallega unnið, vel um brotið - skemmtileg lesning studd fjölda mynda, faglega unnin bók - afar fróðleg lýsing á ferli Charcots - Bókin er sérdeilis skemmtileg fyrir áhugamenn um sögu heimskautarannsókna og landkönnuða.“
Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttablaðið