Höfundur: Einar Kárason

Einar Kárason tók sér sæti á skáldabekk fyrir rúmum aldarfjórðungi og hóf að kæta lesendur með undraverðum frásögnum af eftirminnilegu fólki og sögulegum atburðum. Næmt auga Einars fyrir sérkennum fólks og samskiptum ásamt tilgerðarlausum stíl og hlýlegri kímni eru lykillinn að gríðarlegum vinsældum hans ? með sögum sínum hrífur hann lesendur með sér á vit ævintýra hversdagsins. Hann hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra rithöfunda og margar bóka hans hafa verið þýddar og gefnar út erlendis.

Úrvalsbók Einars Kárasonar geymir sautján verk, þar á meðal fimm heilar skáldsögur, brot úr ævisögu og einni skáldsögu til, ferðaþátt, grein, ljóð og smásögur. Auk alls þessa hefur Einar einnig samið kvikmyndahandrit, leikverk og barnabækur. Hér gefst færi á að kynnast breiðu úrvali eldri og yngri texta úr smiðju Einars og er hverjum þeirra fylgt úr hlaði með stuttum inngangi.

Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur valdi efnið í bókina og skrifar formála og kynningartexta. Með bókinni innbundinni fylgir mynddiskur með kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Djöflaeyjunni, sem byggð er á skáldsögu Einars Kárasonar, Þar sem djöflaeyjan rís.