Eitur fyrir byrjendur er önnur skáldsaga Eiríks Arnar Norðdahl (f. 1978), en hann hefur áður gefið út skáldsöguna Hugsjónadruslan og fjölda ljóðabóka og þýðinga.

Halldór og Herdís búa saman en hafa ekki kysst svo vitað sé. Þegar Herdís færir inn á heimilið varhugaverða pottaplöntu og kynjafræðinemann Högna tapar Halldór hæfileikanum til að fara úr húsi en fær því meiri áhuga á byrlun eiturs. Eitur fyrir byrjendur er skáldsaga sem fjallar á næman hátt um samlíf ungs fólks.

„Flottur stíll, draumkennt andrúmsloft, ófyrirsjáanleiki. Þrælgóður texti.”
Ágúst Borgþór Sverrisson, rithöfundur

„Þetta er ferlega vel skrifaður texti. Það er eitthvað flæði, einhver taktur sem rígheldur manni við lesturinn. Þegar best lætur þá er iðandi fjör í textanum, svolítið eins og í sumum af bestu ljóðum Eiríks, það er svona danstaktur.“
Jón Yngvi Jóhannsson - Kastljós

[Domar]

„Maður getur alltaf verið viss um að allt iðar af lífi í kringum Eirík … hver fruma laumar á ljóði, hver limur á sögu. Þessi saga kemur frá hjartanu.“
Örn Elías Guðmundsson (Mugison)

„Þetta er ekki jafn krúttleg skáldsaga og hún lítur út fyrir við fyrstu sýn. […] Groddalega einlægur frásagnarháttur bókarinnar gerir að verkum að Eiríkur kemst upp með að fjalla um efni sem í höndum einhverra gæti orðið bæði væmið og ósmekklegt.“
Jón Yngvi Jóhannsson – Tímarit Máls og menningar

„Eitur fyrir byrjendur […] er saga sem tekur verulega á taugarnar og því tæpast fyrir viðkvæmar sálir enda vílar Eiríkur Örn ekki fyrir sér að skyggnast inn í myrkustu hugskot mannsins og draga þaðan út alls kyns sora og perragang. En sagan er gríðarlega vel skrifuð […] hann er höfundur sem er kominn til að vera.“
Sigríður Albertsdóttir - DV

„Eiríki tekst ótrúlega vel að tvinna þjáningu þessar persóna saman, og hann gerir það oft með því að setja þær í undarlegar aðstæður þar sem öfgar mætast, og maður bíður spenntur eftir viðbrögðum. “
Bjarki Valtýsson - Vettvangur.net

„Bók Eiríks kemur inná margar tilfinningar, yfir lestrinum má bæði hlæja og gráta. Eiríkur skrifar mjög vel og maður líður áfram um lipran textann og erfitt var að leggja frá sér bókina. Frábærir dómar um hana koma ekki á óvart.”
Kristján Freyr Halldórsson, bóksali

„Þetta andrúmsloft fangar mann og heldur manni við efnið – mann langar helst ekki að leggja bókina frá sér.”
Þórður Sveinsson - thorfredur.blogspot.com

„Textinn hér er einfaldlega frábær og ég verð að viðurkenna að það eru ekki margar íslenskar skáldsögur á þessum áratug sem ég man eftir sem standa Eitrinu jafnfætis í þeim efnum.”
Kristján Atli - blog.kristjanatli.com

„Bókin er grípandi og endalokin óvænt og ekki endilega augljós. […] Eitur fyrir byrjendur er ekki stór bók en hún fjallar um mikilvæga atburði.“
Þórdís Gísladóttir - Morgunblaðinu

„Eiríkur Örn Norðdahl sýnir á sér nýjar hliðar með Eitri fyrir byrjendur. Hún er dýpri, einhvern veginn fegurri en fyrri bækur hans. Og þó að kafað sé í innsta eðli mannlegrar sorgar er það gert af hæfilegum stráksskap þess sem veit að sorgin og sektin verða alltaf til staðar hvort sem við lokum okkur inni eða eitrum fyrir okkur. Þess vegna er um að gera að láta byrðarnar ekki sliga sig…og bara flissa svolítið.“
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir - Víðsjá

[/Domar]