Höfundur: Axel Gunnlaugsson

Að kvöldi 22. janúar 1973 leggst Demmi, tólf ára Vestmannaeyingur, til svefns án þess að gruna hvað kraumar undir fótum hans. Þegar hann er rifinn á fætur skömmu síðar er hann ekki orðinn of seinn í dönskuprófið, eins og honum dettur fyrst í hug. Það gengur eitthvað miklu meira á. Gríðarmikill eldveggur blasir við honum út um gluggann. Heimaey stendur í ljósum logum og yfir hús og götur rignir ösku og vikri.

Eldgos í garðinum er skáldsaga fyrir börn og unglinga um gosið í Vestmannaeyjum. Höfundur bókarinnar flúði sjálfur Eyjarnar með fjölskyldu sinni þessa örlagaríku nótt og segir af þekkingu frá spennunni sem fylgdi gosinu og fræknum ævintýraferðum út í Eyjar til að bjarga verðmætum. En hann lýsir einnig söknuðinum eftir því sem aldrei kemst í samt lag og heimþrá þess sem er flóttamaður uppi á landi löngu eftir að eldurinn er kulnaður heima í Eyjum.