Höfundar: Halldór Laxness, Gunnar Kristjánsson

Bjartur í Sumarhúsum og Ásta Sólilja, Ólafur Kárason, Salka Valka og Sigurlína, Jón Hreggviðsson, Snæfríður Íslandssól, Álfgrímur og séra Jón Prímus - þessar persónur og fleiri sem Halldór Laxness skapaði eru meira lifandi í íslensku þjóðlífi en margur sá sem er af holdi og blóði. Þær eru sífelld uppspretta hugleiðinga og heilabrota um eðli tilverunnar, hegðun mannanna, ástina, dauðann – og guðdóminn.

Í bókinni Fjallræðufólkið - persónur í verkum Halldórs Laxness eru nokkrar þekktustu persónurnar í verkum Halldórs Laxness í brennidepli, einkum lífsviðhorf þeirra og lífsspeki. Gunnar Kristjánsson varpar hér á þær nýju ljósi með því að sýna fram á hvernig kristin trúarheimspeki, sem mótaði mjög heimsmynd Halldórs Laxness á æskuárum, birtist í skáldverkum hans og setur mark sitt á persónusköpunina. Halldór bjó lengi að þeirri menntun og reynslu sem hann hlaut meðal kaþólikka snemma á þriðja áratug 20. aldar, og í verkum hans endurómar alla tíð samúð með lítilmagnanum og virðing fyrir lífinu – það eru grundvallarþættirnir í mótun svipmikilla og ógleymanlegra persónanna.

Gunnar Kristjánsson er prófastur á Reynivöllum í Kjós. Hann lauk doktorsprófi árið 1979 frá Ruhr-háskóla í Bochum í Þýskalandi og fjallaði doktorsritgerð hans um trúarlega þætti í Heimsljósi eftir Halldór Laxness.

Gefin út í kilju.