Bókin Heiður og huggun markar tímamót í rannsóknum á íslenskum bókmenntum síðari alda. Í henni er fjallað um bókmenntagreinar sem voru vinsælar áður fyrr en hafa ekki verið rannsakaðar að neinu marki hér á landi fram að þessu. Einnig eru birtir textar sem aðeins eru varðveittir í handritum og hafa ekki áður verið prentaðir.

Kenningar um bókmenntagreinar (genre theory) eru notaðar til að endurskilgreina 17. aldar erfiljóð og jafnframt til að sýna fram á að sum kvæði sem ort voru í minningu látinna tilheyra öðrum kvæðagreinum. Þær kallar höfundur harmljóð og huggunarkvæði og telur það skipta máli fyrir lestur, skilning og túlkun á einstökum kvæðum hverja af þessum kvæðagreinum miðað er við. Rannsakað var úr hvaða jarðvegi kvæðagreinarnar eru sprottnar og hvaða bókmenntalegu hefðir liggja þeim til grundvallar, en einnig það félagslega umhverfi sem þær tilheyrðu.

Með aðferðum nýsöguhyggju (new historisism) er dregið fram félagslegt og sálrænt hlutverk kvæðagreinanna, sem lýtur í senn að skáldum sem ortu kvæðin, þeim sem ort var um og þeim sem kvæðin voru ætluð. Jafnframt er sýnt fram á að þetta hlutverk hafi tengst félagslegu og menningarlegu valdakerfi sem birtist bæði í efni kvæðanna og formi og endurspeglar sterk tengsl samfélags og bókmennta á 17. öld.