Höfundur: Tahar Ben Jelloun

„Börn skilja öðrum betur,“ segir höfundur þessarar bókar, „að fólk er ekki haldið kynþáttafordómum þegar það fæðist, heldur fyllist það þeim. Stundum. Í þessari bók reyni ég að svara spurningum dóttur minnar, hún er ætluð börnum sem ekki hafa ennþá fyllst fordómum og langar til þess að öðlast skilning.“

Þessi litla bók vakti gífurlega athygli þegar hún kom út í Frakklandi árið 1998 og varð metsölubók á örskömmum tíma, enda brenna málefni innflytjenda á mörgum þar í landi. Sjálfur er Tahar Ben Jelloun frá Marokkó en búsettur í Frakklandi. Nú hefur bókin komið út í tuttugu og fimm þjóðlöndum og hlýtur alls staðar einróma lof fyrir það hve skýrt og skemmtilega hún fjallar um leitina að mannvirðingu og réttlæti.

Þetta er bók fyrir alla fjölskylduna, bók sem foreldrar lesa með börnum sínum og kennarar með nemendum sínum, bók sem auðveldar okkur að ræða eitt viðkvæmasta mál allra tíma – kynþáttafordóma.