Höfundar: Haukur Sigurðsson, Benedikt Davíðsson

Með seiglunni hefst það fjallar um ævi og störf baráttumannsins Benedikts Davíðssonar. Benedikt hefur markað djúp spor í verkalýðs- og félagsmálasögu síðustu áratuga á Íslandi og áhrifa hans gætir víða. Hann ólst upp á Patreksfirði á kreppuárunum og átti í æsku við þungbær veikindi að stríða. Hann náði þó að sigrast á erfiðleikunum og hélt ungur til Reykjavíkur þar sem hann lærði húsasmíði og komst fljótt til metorða á vinstri væng stjórnmálanna.

Benedikt setti sterkan svip á Alþýðusamband Íslands um langt skeið, tók þátt í stefnumótun verkalýðshreyfingarinnar í kjaramálum og kom að bankamálum fyrir hönd ASÍ. Eitt helsta baráttumál hans varð uppbygging lífeyrissjóðakerfisins – og er það til marks um lífsgildi hans og hugsjónir. Fjölmargir kunnir einstaklingar koma hér við sögu, meðal annarra Eðvarð Sigurðsson, Guðmundur Jaki, Jón Snorri Þorleifsson, Magnús L. Sveinsson, Ásmundur Stefánsson og Davíð Oddsson. Þegar Benedikt lét af trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna beið hans nýtt hlutverk sem forystumaður Landssambands eldri borgara.

Haukur Sigurðsson sagnfræðingur hefur samið kennslubækur í samfélagsfræði og sögu fyrir grunnskóla og framhaldsskóla og lengst af kennt sögu við Menntaskólann í Reykjavík.