Höfundur: Brynja Sif Skúladóttir

Veroníka, kölluð Nikký, er ellefu ára og býr með mömmu sinni í Reykjavík. Vorið er komið og þær mæðgur eru á leið til Sviss þar sem mamma Nikkýjar ætlar að láta gamlan leiklistardraum rætast. Nikký langar ekkert sérstaklega mikið með – en hún hefur vart stigið út á brautarstöðinni í Zürich þegar duldir hæfileikar hennar hrinda af stað ótrúlegri atburðarás.

Hvernig í ósköpunum tengist draumurinn sem Nikký hefur dreymt síðan hún var lítil, staðháttum og fólki í Sviss, 
þar sem hún hefur aldrei komið áður? Brúin ... bláklæddi maðurinn með stingandi augun ... og hvítu fjaðrirnar? 
Eftir háskaleg ævintýri, þar sem Zak, hinn sautján ára vinur hennar er aldrei langt undan, uppgötvar Nikký hvar 
rætur hennar liggja. Hún lærir að beita dularfullum hæfileikum sínum og fær loksins botn í stóra spurningu sem 
hefur leitað á hana lengi.