Hvernig þolir umhverfið slíkar breytingar? Munu auðlindirnar nægja? Hlýtur ekki lífskjarasókn okkar að stöðvast? Þessu fór Heiðar Guðjónsson fjárfestir að velta fyrir sér. Hann hefur árum saman lifað og hrærst í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og er þar flestum hnútum kunnugur, en hann er líka ákafur náttúruunnandi og áfram um að draga lærdóma af sögunni. Í þessari aðgengilegu og fjörlegu bók birtir hann hugleiðingar sínar. Og kvíðir reyndar engu! Þótt margt sé að varast eru tækifærin líka stór og spennandi. Heiðar segir frá ást sinni á Grænlandi og merkilegri sögu þess, hann rekur möguleika okkar Íslendinga þegar norðurslóðir opnast, hann fjallar um framtíðarskipan fjármálakerfisins á bæði læsilegan og djarfan hátt, hann skrifar um orku og hugvit, olíu og vatnsafl, gjaldmiðla og höft, Evrópu og Kína.