Höfundar: Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ólafía Jóhannsdóttir

Ólafía Jóhannsdóttir fæddist árið 1863 á Mosfelli í Mosfellssveit. Henni var ungri komið í fóstur í Viðey og síðar til móðursystur sinnar, Þorbjargar Sveinsdóttur ljósmóður í Reykjavík. Hjá þeirri óvenjulegu konu óx hún úr grasi. Saga Ólafíu er samofin sögu íslenskra kvenna á ofanverðri nítjándu öld og fram fyir aldamótin 1900. Hún er jafnframt saga skapríkrar konu sem fór ævinlega sína leið og þegar öll sund virtust lokuð fann hún frelsi sitt og lífsbjörg í trú á kærleiksríkan Guð. Í krafti þess gerði hún sér heimili meðal vændiskvenna, fátæklinga og drykkjumanna í Ósló.

Ólafía er þjóðkunn í Noregi fyrir störf sín þar en í heimalandi sínu er hún síður þekkt. Fáir vita að hún var forvígismaður íslenskrar kvennabaráttu, byltingarkona og heimskona sem ferðaðist víða og kynntist jafnt hefðardömum sem niðurbeygðum konum götunnar.

Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur um árabil verið prófessor í mannfræði við félagsvísindadeild Háskóla íslands en er nú sendiherra Íslands í Suður-Afríku og fleiri ríkjum í sunnanverðri álfunni. Rit hennar Björg, Ævisaga Bjargar C. Þorláksson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita árið 2001.