Höfundur: Wladimir Kaminer

Árið 1967 var mikið tilstand í Sovétríkjunum. Fimmtíu ár voru liðin frá Októberbyltingunni miklu og ráðamenn börðu bumbur og blésu í lúðra – nú skildi haldin stórbrotin hergöngusýning með kjarnorkuflugskeytum og orrustuþotugný. Sovétríkin voru líka sannarlega í fremstu röð: Þau áttu fyrstu geimflaugina, fyrsta geimhundinn og fyrsta geimfarann. En hinn sósíalíski smáborgari var í bobba. Hann glímdi við hið óleysanlega pylsuvandamál en einnig við hið skelfilega sykurvandamál auk þess sem smjörvandamálið hrópaði á viðunandi lausnir. Á þessu fagnaðarári fæddist Wladimir Kaminer. Skömmu síðar fórst fyrsti geimfarinn í hræðilegu slysi.

Æska og uppvöxtur í móðurlandi sósíalismans eru uppistöðumelódíurnar í þessu magnaða herlagadiskóteki þar sem Wladimir Kaminer er með puttana á tökkunum. Hann stormaði inn á sjónarsviðið í Berlín um það leyti sem síðustu brotin kvörnuðust úr múrnum og varð umsvifalaust metsöluhöfundur. Hann er einn helsti sérfræðingur heims í sovéskri popptónlist og sovésk danskvöld sem hann skipuleggur, svonefnt „Rússadiskó“, er ógleymanleg lífsreynsla. Kaminer hefur síðustu fimmtán árin búið í Berlín ásamt konu og börnum. Hann hefur komið til Íslands en fór þá huldu höfði.