Lífið á jörðinni á sér langa sögu en uppruni þess er enn mikil ráðgáta. Stóraukin þekking á innri gerð og starfsemi lífvera hefur ekki megnað að auka skilning á uppruna þeirra. Margvíslegar tilgátur um uppruna lífs hafa verið settar fram en um enga þeirra er einhugur. Jafnframt hefur reynst torvelt að svara spurningunni um eðli lífsins á sannfærandi hátt. Enn síður er til vísindaleg skýring á því að til skuli vera lífverur sem geta spurt spurninga um tilveru sína og uppruna. Í þessari bók segir annars vegar frá upphafi sameindalíffræðinnar og merkum uppgötvunum sem lögðu grundvöllinn að nútímalíffræði. Hins vegar er fjallað um uppruna lífs og helstu tilraunir til að gera grein fyrir honum. Loks beinist umræðan að eðli lífsins og að meðvituðu lífi.