Höfundur: Boris Akúnin

Fandorin, ríkisráð í Moskvu, er talinn slyngasti rannsóknarlögreglumaður Rússlands og yfirboðarar hans fela honum þess vegna að tryggja öryggi háttsettra embættismanna. Flokkur hryðjuverkamanna, undir stjórn hins dularfulla Grín, leikur hins vegar á hann, og Moskva nötrar í sprengjudunum. Loksins virðist Fandorin hafa hitt ofjarl sinn . . .

Engar bókmenntir eru eins vinsælar í Rússlandi um þessar mundir og sögurnar um lögreglumanninn Fandorin. Þær gerast á árunum 1876–1900 og sameina á undraverðan hátt anda rússnesku meistaranna, Dostojevskís, Túrgenjevs og Tolstojs, og þá spennu sem einkennir glæpasögur nútímans. Þessi einstaka samtvinnun ólíkra þátta gerir sögur Boris Akúnins að fágætri lestrarnautn.

Ríkisráðið er fyrsta bókin um Fandorin ríkisráð sem kemur fyrir sjónir íslenskra lesenda. Árni Bergmann þýddi.

„Boris Akúnin hefur tekist að gera sannkallað kraftaverk: Að leiða saman á sannfærandi hátt formúlubókmenntir eins og leynilögreglusöguna og hin stórbrotnu verk frá blómaskeiði rússneskra bókmennta á 19. öld. Útkoman er stórkostleg.“
Le Nouvel Observateur

„Þeir sem unna vel gerðum og innihaldríkum spennusögum hafa fundið sinn höfund.“
Frankfurter Allgemeine Zeitung

„Hugkvæmni þessara sagna er einstök.“
La Repubblica