Höfundur: Sólmundur Hólm Sólmundarson

Gylfi Ægisson er fyrir löngu orðinn þjóðareign fyrir lagasmíðar sínar og listamannsstörf. Þessi einstaki maður hefur þurft að klífa marga brekkuna og oft var útlitið svart, en sterk listræn þörf og einlæg trú á samfylgd Jesú á lífsgöngunni hafa haldið honum á brautinni. Hann fæddist ekki með gullskeið í munni. Var kominn á sjó strax á unglingsaldri og þvældist um landið þvert og endilangt. Hann byrjaði ungur að drekka og varð óreglumaður af stórkostlegri sort. Slíkir menn þurfa að kunna ýmislegt fyrir sér í hörðum heimi og þegar kom að slagsmálum, peningaharki og kvennastússi voru honum allir hnútar kunnugir.

Þrátt fyrir kalsasamt líf dó hið meyra aldrei í þessari rómantísku og leitandi listamannssál. Hann spilaði og söng, hann samdi lög og gaf af sér gleði og yl til samferðamanna sinna. Hann stráði perlunum í kringum sig. Loks hjálpaði Guð honum að stinga tappanum í flöskuna og síðan hefur hann ekki smakkað það.