Með sögum sínum og leikritum varð Geir Kristjánsson (1923-1991) einn af brautryðjendum módernismans í íslenskum bókmenntum upp úr miðri 20. öld. Hann átti líka stærri þátt í því en flestir aðrir um sína daga að kynna hér á landi erlend ljóð í nákvæmum og fáguðum þýðingum. Meðal annars varð hann fyrstur Íslendinga til þess að þýða rússneskan skáldskap að einhverju marki úr frummálinu og vann alla ævi að því að kynna löndum sínum gullöld rússneskrar ljóðlistar, öld Majakovskís, Pasternaks og Akhamatovu.

Bók þessi geymir tólf sögur eftir Geir Kristjánssonar svo og tvö leikrit eftir hann. Einnig er hér að finna flestallar ljóðaþýðingar Geirs sem birtust á prenti um fjörutíu ára skeið. Alls eru í bókinni yfir eitt hundrað erlend ljóð eftir rúmlega tuttugu skáld frá sjö þjóðlöndum, auk sagna og minningabrota eftir rússnesku meistarana Gogol og Dostojevskí, Pasternak og Jevtúshenko. Samanlagt gefur allt þetta glögga mynd af ævistarfi mikils listamanns.

Í upphafi bókar lýsir Þorgeir Þorgeirson kynnum sínum af Geir og metur þátt hans í íslenskri menningarsögu, en í lok bókar ritar Árni Bergmann grein um Rússland skáldskaparins eins og það birtist í þýðingum hans. Loks er í bókinni ritaskrá Geirs Kristjánssonar. Þorvaldur Kristinsson valdi efnið og bjó bókina til prentunar.