Höfundur: Ævar Örn Jósefsson

Fáir listamenn hafa markað dýpri spor í íslenska samtímasögu en Hörður Torfa. Þeir eru til sem hafa hærra og sperra sig meira, en rétt eins og dropinn sem holar steininn hefur Hörður náð að búa um sig í íslenskri þjóðarvitund og breyta henni nánast án þess að nokkur tæki eftir því.

Að vísu tóku nánast allir eftir því þegar hann lýsti því yfir opinberlega, fyrstur Íslendinga, að hann væri „hómósexúalisti“ í viðtali í tímaritinu Samúel árið 1975. Þá fór allt á hvolf, enda glæpsamlegur öfuguggaháttur að vera hinsegin. Hörður, sem hafði verið einn dáðasti og vinsælasti tónlistarmaður landsins, eftirsóttur leikari og fyrirsæta, hraktist af landi brott, ofsóttur og forsmáður jafnt af almenningi og þeim sem ferðinni réðu í listalífinu. Það sem hann gerði í framhaldinu (og gerir enn) hefur ekki farið jafnhátt.

Með seigluna, réttlætið og umfram allt þrákelknina að vopni vann hann hörðum höndum að stofnun baráttusamtaka fyrir réttindum samkynhneigðra. Það tókst er Samtökin ’78 voru stofnuð á heimili hans þann níunda maí 1978. En hann lét ekki staðar numið heldur hélt áfram að vinna að réttindamálum samkynhneigðra á sinn hógværa en markvissa hátt. Ekki með hnefann á lofti eða slagorð á vörum, heldur með gítarinn, söngvana sína og sögurnar að vopni – og umfram allt sjálfan sig. Tabú er áhrifarík saga einstaklings sem breytti sögu þjóðar með því að vera hann sjálfur.