Annað hefti TMM á þessu ári er komið út og kennir þar margra grasa að vanda. Þeir Gísli Pálsson og Sigurður Örn Guðbjörnsson segja frá rannsóknum Jens Pálssonar á Íslendingum og þeirri grein mannfræðinnar sem hann stundaði og kennd hefur verið við líkamsmannfræði. Grein þeirra heitir Homo islandicus. Algerlega ótengd henni er mögnuð smásaga eftir Steinar Braga, Hvíti geldingurinn…

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtakanna skrifar í tilefni af Ríó +20 ráðstefnunni um umhverfismál – mat á árangri tuttugu árum eftir Ríó-ráðstefnuna – sem haldin er nú í júní og rekur rysjótta samskiptasögu íslenskra stjórnvalda og frjálsra umhverfisverndarsamtaka.

Brynja Þorgeirsdóttir skrifar af um hina illu sæborg Gosa en Sigurður Pálsson skáld segir frá því hvernig leikritið hans Utan gátta varð til. Þorsteinn Antonsson hefur í grúski sínu fundið bréfaskipti Erlendar í Unuhúsi og kunningja og segir frá þeim en Brynhildur Þórarinsdóttir skrifar um minnkandi bóklestur barna og unglinga og bryddar upp á úrbótum á þeim vanda.

Þýðingar eru í heftinu eftir þá Óskar Árna Óskarsson og Atla Bollason og ljóð eftir Anton Helga, Kristian Guttesen og Stefán Mána.

Ari Trausti Guðmundsson ritar um föður sinn Guðmund frá Miðdal í tilefni af nýrri Listasögu og listamennirnir Margrét Þ. Jóelsdóttir og Stephen Fairbairn stinga niður penna af sama tilefni, en Árni Björnsson þjóðháttafræðingur hefur ýmislegt að athuga við bók Hannesar H. Gissurarsonar um Íslenska kommúnista.

Umsagnir eru að vanda: Úlfhildur Dagsdóttir skrifar um bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Allt með kossi vekur, Atli Bollason skrifar um Bónusstelpuna eftir Rögnu Sigurðardóttur og Soffía Auður Birgisdóttir skrifar um bók Hallgríms Helgasonar Konuna við 1000°.