Út er komið Tímarit Máls og menningar, annað hefti ársins. Þar kennir margra grasa að vanda og má þar nefna forvitnilega grein eftir sænska prófessorinn Lars Lönnroth um Sigurð Nordal og Nönnu Boëthius, fyrri eiginkonu hans sem hafði yfirgefið mann og börn til að giftast Sigurði.

Böðvar Guðmundsson rithöfundur skrifar um ljóðskáldið Gerði Kristnýju en Kristín Ómarsdóttir heldur áfram að taka viðtöl við samhöfunda sína, að þessu sinni Halldóru Kristínu Thoroddsen.

Daisy Neijmann skrifar um Svövu Jakobsdóttur og Árni Bergmann kynnir nóbelsverðlaunahöfundinn Svetlönu Alexijevitsj. Þórunn Jarla Valdimarsdóttir segir frá Afríkudvöl sinni og Þröstur Ólafsson veltir fyrir sér vanda vinstri manna.

Ljóð eru meðal annars eftir Óskar Árna Óskarsson, Valdimar Tómasson og Anton Helga og sögur eftir Ólöfu Þórhildi Ólafsdóttur og Auði Styrkársdóttur en ádrepur rita þeir Davíð Stefánsson og Einar Már Jónsson.