Vonandi gengur Tímaritið ekki fram af sómakærum lesendum sínum að þessu sinni í Ádrepugreinum sínum, sem eru tvær helgaðar blygðunarstöðum mannslíkamans og kallast á þótt þær séu raunar samdar hvor í sínu horninu: Bergur Ebbi Benediktsson rekur kostulega umræðu sem hér varð fyrir nokkru um stærð hins íslenska typpis og fer í óvæntar áttir með þær ályktanir sem draga má af þeim einkennilegu rannsóknum, en Ólafur Páll Jónsson veltir hins vegar fyrir sér þeirri afdráttarlausu kröfu sem ríkt hefur um rakstur kynhára á undanförnum árum.

Þorsteinn Þorsteinsson bókmenntafræðingur heldur áfram gjöfulum rannsóknum sínum á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr en fáir hafa skrifað um íslenska nútímaljóðlist hin seinni árin af meiri þekkingu og yfirsýn en Þorsteinn. Og loks er vert að vekja athygli á því að nú gefst okkur um síðir kostur á því að kynnast skrifum Bjarna Randvers Sigurvinssonar um kunnasta trúleysingja Íslendinga á síðustu öld: Helga Hóseasson, auk þess sem Guðni Elísson prófessor, sem mjög beitti sér í svokallaðri Vantrúardeilu við HÍ, rekur það mál eins og það horfir við honum.

Óvenju margir ritdómar eru í heftinu að þessu sinni um bækur síðasta árs, enda tímaritið sérlega hentugur vettvangur til slíkra dóma þegar hæfilegur tími er liðinn frá útkomu skáldverka og tími hefur gefist til að gaumgæfa þau í góðu tómi.

Og er þá fátt eitt talið af efni heftisins …

Guðmundur Andri Thorsson