Á Hólum í Hjaltadal ætla menntaskólanemar frá Akureyri að frumsýna Galdra-Loft og Einar blaðamaður mætir á vettvang til efnisöflunar. Hann hefur nú yfirgefið sínar fornu veiðilendur, löggufréttir af höfuðborgarsvæðinu, og er fluttur til Akureyrar því auka skal útbreiðslu Síðdegisblaðsins á uppgangstímum á Norður- og Austurlandi.

Á leiðinni frá Hólum þarf Einar að sinna nýrri frétt: Kona frá Akureyri hefur fallið útbyrðis í flúðasiglingu, einni af hinum vinsælu óvissuferðum starfsmannafélaganna í landinu. Skömmu síðar er hún látin.

Þetta er fyrsta en ekki síðasta dauðsfallið í ískyggilegri atburðarás þessarar nýju sakamálasögu um ævintýri Einars blaðamanns.

Árni Þórarinsson tvinnar sögulegan arf Íslendinga og næma sýn á þjóðlífið saman í margslungna fléttu þar sem hver gátan rekur aðra.

Tími nornarinnar er hugmyndarík, gamansöm og hörkuspennandi skáldsaga. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2005.