Í nóvellunni Tvöfalt gler skrifar Halldóra Thoroddsen um gamalt fólk sem sjaldan er ljáð rödd í íslenskum skáldskap. Þetta er stór saga þótt stutt sé og tekst höfundi sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Tvöfalt gler er bæði gegnsætt og einangrandi. Á bak við það leynist líf sem lifað er af ítrustu kröftum, líf sem hamast á glerinu eins og fluga að hausti sem enn er sólgin í birtuna.

Fyrir þessa sögu hlaut Halldóra Thoroddsen Fjöruverðlaunin 2016, bókmenntaverðlaun kvenna, þann 21. janúar í flokki fagurbókmennta. Sagan, sem nú kemur út sem bók, var birt í tímaritröðinni 1005 á síðasta ári. Halldóra hefur áður sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn.