Þegar unnusta flugmanns farþegavélar sem er á leið frá Ísafirði til Reykjavíkur er að taka til heima hjá sér fær hún skyndilega hugboð og lítur á klukkuna – hún er hálftvö – hana grunar að eitthvað sé að. Hálfri klukkustund síðar hringir síminn og karlmannsrödd segir:„Flugvélarinnar er saknað – hún hvarf af ratsjá.“

Hér er greint frá flugslysinu í Ljósufjöllum í apríl 1986 þegar þeir sem lifðu af slysið urðu að bíða á elleftu klukkustund eftir hjálp. Pálmar Gunnarsson, sem missti bæði konu sína og lítið barn, er að missa vonina. Hrikalegt ofviðri í Snæfellsnesfjallgarðinum veldur björgunarmönnum ótrúlegum erfiðleikum. Snjóbílar þurfa að aka um nýfallin snjóflóð og þyrlan TF-SIF flýgur hættuflug upp í fjöllin.

Flugrekstrarstjórinn, sem seldi farþegunum miða í flugið, fær nagandi samviskubit og stúlkan, sem missti bæði móður sína og systur í slysinu, segir frá því hvernig hún hefur, þrátt fyrir allt, öðlast gott líf með þakklæti að leiðarljósi. Sjómaðurinn hrausti, Kristján Guðmundsson, greinir frá ótrúlegum bata og æðrast ekki þótt hann hafi ekki kannast við andlit sitt er hann leit fyrst í spegil eftir flugslysið.

Í bókinni er einnig greint frá ævintýralegu stökki tíu manna fallhlífarstökkhóps og baráttu hans upp á líf og dauða við Grímsey þegar ljóst verður að fæstir í hópnum komast upp á eyna heldur lenda í sjónum eða utan í klettum.

Hraði, spenna og sterkar tilfinningar ríkja í þessari sögulegu Útkallsbók Óttars Sveinssonar. Lesendur gleyma sér og vilja ekki leggja bækur hans frá sér fyrr en að lestri loknum.

Höfundur les.

ATH. Hljóðbækurnar eru aðeins til á geisladiski (CD eða Mp3) sem er afhentur í pósti eða sóttur í Bókabúð Forlagsins. Hér má finna hljóðbækur okkar sem eru aðgengilegar rafrænt í streymi.