Vetrarbraut er bálkur ljóða þar sem brugðið er upp svipmyndum mannlegrar reynslu allt frá því í árdaga og til nútímans. Sjónarhornið er jafnan óvenjulegt, eins og þegar skyggnst er inn í huga skylmingaþræls í rómversku hringleikahúsi í þann mund sem net andstæðingsins fellur yfir hann, fangar þríforkinn og sólin blikar á brugðið sverð. Eða þegar ljóðmælandinn er ung stúlka sem felur sig í hálmi og hrossaskít undir úrsérgengnum vagni meðan óvinveittur her æðir um göturnar, brennandi hús og helgidóma. Djúpur mannlegur skilningur og samkennd höfundar með lítilmagnanum er sá þráður sem bindur saman þessa „sögu á spássíu Sögunnar með stórum staf“.

Kjell Espmark (f. 1930) er skáld og prófessor emeritus í bókmenntafræði við Háskólann í Stokkhólmi. Hann var kjörinn í sænsku akademíuna 1981 og situr í Nóbelsnefndinni sem velur verðlaunahafann í bókmenntum ár hvert. Espmark er höfundur 38 bóka, jafnt skáldverka sem fræðirita. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir skáldskap sinn, nú síðast Tomas Tranströmer-verðlaunin árið 2010. Vetrarbraut á ekki hvað síst þátt í því, enda segir dómnefndin að hann hafi með „orfeískri þrjósku og tilfinningaríku hugmyndaflugi sungið til baka þá sem sagan útrýmdi og valdið drap – í lýrískum ljóðum um endurskin kærleika og dauða.“

Njörður P. Njarðvík íslenskaði. Uppheimar gáfu út.