Vísunda-Villi

Vísundabók Villa væntanleg!

Vilhelm Anton Jónsson, einnig þekktur sem Vísinda-Villi, hefur nú lokið við skrif á nýrri bók sem fylgir eftir velgengni Vísindabókar Villa sem seldist eins og heitar lummur fyrir jólin. Þó gætir nokkurra áherslubreytinga í þessarri nýju bók en hún fjallar eingöngu um vísunda og ber nafnið Vísundabók Villa.

„Ég varð bara algjörlega heillaður af þessum mögnuðu dýrum,“ segir Villi þegar hann er spurður út í þetta áhugaverða efnisval. „Mér fannst bara kominn tími til að einhver gerði þessum skepnum skil. Það hefur lítið verið gert til kynna þær fyrir krökkum á Íslandi. Eitt sinn gengu hundruð milljón vísunda um gresjur Ameríku en stofninn hefur minnkað hratt á undanförnum árum og allt eins víst að hann hverfi alveg á næstu áratugum. Mér fannst tími til að hampa þessum mikilfenglegu dýrum – í það sem gæti reynst síðasta sinn í íslenskri bókmenntasögu á meðan þau enn lifa.“

Lesendur Vísundabókarinnar munu líka taka eftir töluverðum breytingum á aðalpersónu bókarinnar sem nú kallar sig Vísunda-Villi og ber fjaðraskrúð að hætti indjána á höfði. Eins hefur öllum vísindatólum verið skipt út fyrir örvamæla, reiðtygi og annað sem nauðsynlegt er indjánum. En er gamli góði Vísinda-Villi þá liðinn undir lok? „Nei, hreint ekki! Þið ættuð kannski frekar að ímynda ykkur Vísunda-Villa sem indjána-alter ego Vísinda-Villa. Vísunda-Villi er indjánanafn Vísunda-Villa, svipað og Litli-björn eða Stóri-úlfur. Allt til að gera karakterinn trúverðugan!“

Það er ljóst að aðdáendur Villa eiga von á góðu!

Þeir sem vilja forpanta bókina geta gert það hér.

INNskráning

Nýskráning